Notendaskilmálar fyrirtækja fyrir Dropp

Þessir skilmálar (hér eftir „skilmálarnir “) fyrir Dropp ehf., kt. 580619- 1260 (hér eftir „Dropp ehf.“ ), eru óaðskiljanlegur hluti samnings (hér eftir „samningurinn“ ) milli fyrirtækis (hér eftir „fyrirtækið“ ) og Dropp ehf.

Með því að nota þjónustu Dropp ehf. lýsir fyrirtækið því yfir að af þess hálfu hafi skilmálarnir verið lesnir yfir og samþykktir í heild sinni. Sá sem staðfestir skilmálana fyrir hönd fyrirtækisins staðfestir að viðkomandi hefur umboð til þess að samþykkja skilmálana fyrir hönd fyrirtækisins og að fyrirtækið muni virða skilmálana og fara að þeim í einu og öllu.

1. SKILGREININGAR

1.1. Nema sérstaklega sé kveðið á um annað hafa eftirgreind orð í skilmálunum þá merkingu sem hér segir:

1.1.2. „Dropp“ er þjónusta sem fyrirtækið getur notað til þess að afhenda vörur til viðskiptavina sinna og til að móttaka vörur frá viðskitpavinum sínum (t.d. vegna vöruskila eða viðgerða á vörum).

1.1.3. „Viðskiptavinur“ er viðskiptavinur fyrirtækisins sem fær vörur afhentar frá fyrirtækinu eða sendir vörur til fyrirtækisins með Dropp (t.d. vegna vöruskila eða viðgerða á vörum).

1.1.4. „Afhendingaraðili“ er undirverktaki eða samstarfsaðili Dropp ehf. sem sér um að afhenda vörur til viðskiptavina og að móttaka vörur frá viðskiptavinum. Afhendingaraðilar geta t.d. verið fyrirtæki sem reka verslanir, bensínstöðvar, eða aðra afgreiðslustaði.

1.1.5. „Undirverktakar“ eru allir undirverktakar eða samstarfsaðilar Dropp ehf., svo sem fyrirtæki sem sjá um akstur í tengslum við Dropp, óháð því hvort um afhendingaraðila sé að ræða.

1.1.6. „Afhendingarstaður“ er afgreiðslustaður afhendingaraðila þar sem þjónusta Dropp er í boði.

1.1.7. „Móttökustaður“ er staður þar sem fyrirtækið getur afhent Dropp sendingar sem senda á með Dropp.

1.1.8. „Starfsmaður“ er starfsmaður Dropp ehf. eða starfsmaður undirverktaka (þ.m.t. starfsmenn afhendingaraðila).

1.1.9. „Vörur“ eru vörur sem sendar eru með Dropp.

1.1.10. „Sending“ er sending frá fyrirtækinu til viðskiptavinar sem inniheldur eina eða fleiri vörur.

1.1.11. „Endursending“ er sending frá viðskiptavini til fyrirtækisins sem inniheldur eina eða fleiri vörur.

1.1.12. „Strikamerki sendingar“ er strikamerki sem fyrirtækið skráir í kerfi Dropp fyrir hverja sendingu og er einstakt fyrir hverja sendingu.

1.1.13. „Afhending“ er afhending á sendingu til viðskiptavinar eða afhending á sendingu til fyrirtækisins.

2. ÞJÓNUSTAN

2.1. Fyrirtækið fær aðgang að vefsvæði þar sem fyrirtækið getur skráð sendingar og séð stöðu allra skráðra og afhentra sendinga í rauntíma, svo sem upplýsingar um hvar sending er staðsett hverju sinni.

2.2. Fyrirtækið fær einnig aðgang að þeim tengingum við vefverslunar-, lager- og bókhaldskerfi sem Dropp býður upp á hverju sinni. Uppsetning og aðstoð við að tengjast Dropp er fyrirtækinu að kostnaðarlausu upp að því marki sem eðlilegt getur talist. Ef fyrirtækið þarf að gera breytingar á kerfum fyrirtækisins eða þarfnast viðbótarkerfa eða áskriftarleiða, svo sem breyttrar áskriftarleiðar vefverslunarkerfis, til þess að geta nýtt þjónustu Dropp, skal kostnaður við slíkt vera á höndum fyrirtækisins.

2.3. Dropp sér um að afhenda vörur sem sendar eru með Dropp til viðskiptavina. Afhending á vörum fer fram á afhendingarstöðum sem staðsettir eru hjá samstarfsaðilum Dropp, t.d. á bensínstöðvum og í verslunum.

2.4. Akstur frá móttökustað til afhendingarstaðar (vegna sendinga) og akstur frá afhendingarstað til móttökustaðar (vegna endursendinga) er á höndum Dropp ehf. og er hann innifalinn í því verði sem fyrirtækið greiðir fyrir þjónustuna samkvæmt gjaldskránni.

3. MÓTTAKA Á VÖRUM 3.1. Fyrirtækið skal skrá strikamerki í kerfi Dropp fyrir hverja sendingu sem afhent er með Dropp sem er sjáanlegt utan á sendingunni. Einnig er hægt að búa til strikamerki í kerfi Dropp sem þá þarf að prenta út og festa á sendinguna. Strikamerkið er notað til þess að skrá hvar varan er staðsett hverju sinni.

3.2. Fyrirtækið skal láta Dropp ehf. hafa vörur sem senda á með Dropp á móttökustað sem tilgreindur er af Dropp nema annað sé tekið fram í samningi eða samkomulagi milli fyrirtækisins og Dropp ehf.

3.3. Þegar um vöruskil er að ræða skal fyrirtækið sjá um að sækja vörurnar á afhendingarstaðinn nema annað sé tekið fram í samningi eða samkomulagi milli fyrirtækisins og Dropp ehf.

4. HÁMARKSÞYNGD OG AÐRAR TAKMARKANIR

4.1. Hámarksþyngd sendinga er tilgreind í gjaldskránni. Ef sending er stærri en svo að hægt sé að geyma hana á afhendingarstað er Dropp heimilt að endursenda sendinguna til fyrirtækisins eða hafna móttöku á sendingu frá viðskiptavini.

4.2. Fyrirtækið samþykkir að senda ekki eftirfarandi vörur með Dropp enda geta þær skapað hættu eða óþægindi fyrir starfsmenn og aðra þá sem nýta þjónustu Dropp:

4.2.1. Efni sem stafar af eld- eða sprengihætta og önnur hættuleg efni.

4.2.2. Hluti sem í eðli sínu, eða sökum óvandaðra umbúða, geta skaðað starfsmenn eða óhreinkað eða skemmt aðrar sendingar eða tæki Dropp og afhendingaraðila.

4.2.3. Matvæli eða aðrar vörur sem skemmast mikið ef þær eru lengur en tvo daga í flutningum.

4.3. Fyrirtækið samþykkir að senda ekki eftirfarandi vörur með Dropp enda gilda sérstakar reglur um afhendingu á þessum vörum:

4.3.1. Nikótínvörur og rafrettur

4.3.2. Áfengi

4.3.3. Lyf

4.4. Fyrirtæki sem hyggjast senda vörur þar sem takmarkanir eða reglur gilda um afhendingu sbr. grein 4.3. skulu tilkynna Dropp um það sérstaklega og getur Dropp þá heimilað afhendingu á vörunum. Í slíkum tilfellum þurfa móttakendur að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum til þess að tryggja að reglum um afhendingu sé fylgt.

5. GJALDSKRÁ

5.1. Fyrirtækið skal greiða Dropp ehf. fyrir þá þjónustu sem Dropp ehf. veitir í samræmi við gjaldskrá (hér eftir „gjaldskráin“ ) sem skal vera aðgengileg á http://www.dropp.is.

5.2. Öll verð sem tilgreind eru í gjaldskránni eru ávallt birt án virðisaukaskatts, nema annað sé sérstaklega tekið fram við viðkomandi gjaldskrárlið.

5.3. Fyrirtækið getur valið um mismunandi áskriftarleiðir sem eru nánar tilgreindar í gjaldskránni. Fyrirtækið getur breytt um áskriftarleið hvenær sem er og skal þá nýja áskriftarleiðin taka gildi við næstu mánaðarmót eftir að tilkynning um breytinguna berst til Dropp. Nægjanlegt er að senda tilkynningu á [email protected] til þess að breyta um áskriftarleið.

5.4. Dropp ehf. mun skuldfæra fyrirtækið fyrir þá þjónustu sem Dropp ehf. hefur veitt fyrirtækinu samkvæmt gjaldskránni, auk virðisaukaskatts, annað hvort ( 1 ) við næstu mánaðarmót eftir að sending er móttekin í kerfi Dropp, ( 2 ) eftir að fjárhæðarhámarki hefur verið náð af fyrirtækinu óháð því hvenær sending er móttekin í kerfi Dropp, eða ( 3 ) við næstu mánaðarmót eftir að Dropp ehf. hefur framkvæmt fyrir fyrirtækið viðbótarþjónustu í tengslum við þjónustu Dropp, samkvæmt samningi milli fyrirtækisins og Dropp ehf. og/eða gjaldskránni.

5.5. Allir reikningar eru á gjalddaga 14 dögum frá því Dropp ehf. gefur þá út, nema reikningur kveði sérstaklega á um lengri greiðslufrest.

6. ÁBYRGÐ Á VÖRUM

6.1. Dropp ehf. ber ábyrgð á vörum sem afhentar eru með Dropp og er tímabil ábyrgðarinnar skilgreint þannig:

6.1.1. Upphaf ábyrgðar miðast við þann tíma þegar starfsmaður móttekur sendingu. Til staðfestingar á móttöku skal starfsmaður skanna strikamerki sendingarinnar og skal afhendingin skráð í gagnagrunn Dropp.

6.1.2. Lok ábyrgðar miðast við þann tíma þegar sending er annað hvort (1) afhent til viðskiptavinar, eða (2) afhent til fyrirtækisins. Þegar sending er afhent til viðskiptavinar skal starfsmaður skanna QR kóða sem viðskiptavinur hefur undir höndum og skal afhendingin skráð í gagnagrunn Dropp. Þegar sending er afhent til fyrirtækisins skal starfsmaður sjá til þess að afhendingin sé skráð í gagnagrunn Dropp.

6.2. Ef vara týnist, skemmist, eða er afhent röngum móttakanda, á meðan hún er á ábyrgð Dropp ehf., eins og nánar er tilgreint í gr. 6 .1., getur fyrirtækið krafist skaðabóta frá Dropp ehf. Hámarksfjárhæð skaðabóta fyrir hverja vöru er kr. 15.000.

6.3. Skaðabætur vegna vöru sem týnist eða sem afhent er röngum móttakanda skulu miðast við innkaupsverð fyrirtækisins. Skaðabætur vegna vöru sem er skemmd skulu miðast við viðgerðarkostnað. Dropp ehf. getur krafið fyrirtækið um sönnun, svo sem kvittanir, á innkaupsverði og viðgerðarkostnaði.

6.4. Dropp tekur ekki ábyrgð á óbeinu tjóni sem verður vegna seinkunar á afhendingu.

7. VIÐBÓTARÁBYRGÐ

7.1. Fyrirtækið getur valið um viðbótarábyrgð eins og nánar er tilgreint í gjaldskránni og í samningnum. Ef fyrirtækið er með viðbótarábyrgð gildir gr. 4 einnig um viðbótarábyrgðina að því undanskildu að fjárhæð ábyrgðarinnar tekur mið af viðbótarábyrgðinni.

7.2. Fyrirtækið getur óskað eftir því að breyta viðbótarábyrgðinni hvenær sem er. Ósk um breytingu á viðbótarábyrgðinni skal senda á [email protected]. Ef um hækkun á viðbótarábyrgð er að ræða þá tekur nýja ábyrgðin gildi þegar fyrirtækið hefur fengið staðfestingu frá Dropp á breytingu á ábyrgðinni. Ef um lækkun á ábyrgð er að ræða tekur breytingin gildi við næstu mánaðarmót eftir að tilkinning um breytingu á ábyrgðinni berst til Dropp.

8. TAKMÖRKUN ÁBYRGÐAR

8.1. Ef Dropp bilar eða liggur niðri, kann þjónusta Dropp að verða tímabundið óaðgengileg fyrir fyrirtækið án réttar þess til bóta.

8.2. Dropp ehf. er ekki ábyrgt fyrir óþægindum eða skemmdum sem kunna að verða vegna bilana eða galla í Dropp, svo sem vélrænni bilun, tæknilegum mistökum, við hugbúnaðaruppfærslu, bilun í hugbúnaði, kerfisuppfærslu, galla í stýrikerfum, netkerfum eða fjarskiptakerfum eða vegna rofs á þjónustu Dropp vegna rafmagnsbilunar eða truflana á fjarskiptaþjónustu.

9. SAMSKIPTI VIÐ VIÐSKIPTAVINI

9.1. Fyrirtækið heimilar Dropp ehf. að senda viðskiptavinum tilkynningar í tölvupósti og/eða með textaskilaboðum með upplýsingum sem varða sendingarnar, svo sem upplýsingum um hvar og hvenær sending viðskiptavinar er tilbúin til afhendingar, QR kóða sem viðskiptavinur notar til þess að nálgast sendingu, fyrirspurnum til viðskiptavina um hvernig þeim líkaði þjónustan, og eftir atvikum öðrum upplýsingum er varða sendingarnar.

10. PERSÓNUUPPLÝSINGAR

10.1. Dropp ehf. er vinnsluaðili, sbr. lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 90/2018 eins og þeim kann að verða breytt á hverjum tíma, eingöngu í tengslum við upplýsingar sem veittar hafa verið í tengslum við þjónustu Dropp eins og henni er lýst í skilmálum þessum.

10.2. Réttindi og skyldur Dropp ehf. og fyrirtækisins í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga koma fram í persónuverndarstefnu Dropp ehf., sem aðgengileg er á http://www.dropp.is, og í vinnslusamningi milli fyrirtækisins og Dropp ehf.

11. BREYTINGAR Á SKILMÁLUNUM OG GJALDSKRÁNNI

11.1. Dropp ehf. áskilur sér rétt til að breyta skilmálunum og/eða gjaldskránni á hverjum tíma en það skal þó tilkynnt með a.m.k. 1 5 daga fyrirvara. Dropp ehf. mun tilkynna fyrirtækinu um breytingar á skilmálunum og/eða gjaldskránni með tölvupósti til fyrirtækisins og með því að gera nýju skilmálana og/eða gjaldskrána aðgengilega á http://www.dropp.is.

11.2. Hafni fyrirtækið ekki breytingu á skilmálunum og/eða gjaldskránni innan 15 daga frá því að það fékk um það tilkynningu með tölvupósti samþykkir fyrirtækið hina breyttu skilmála og/eða gjaldskrá. Hafni fyrirtækið hinum breyttu skilmálum eða gjaldskrá innan framangreinds tímabils, telst sú höfnum jafngilda uppsögn á samningnum með 30 daga fyrirvara og gilda á því tímabili þeir skilmálar og sú gjaldskrá sem síðast voru í gildi milli aðila með samþykki beggja.

12. LOK ÞJÓNUSTU

12.1. Dropp ehf. er heimilt að loka á þjónustuna við fyrirtækið fyrirvaralaust, ef Dropp ehf. hefur ástæðu til að ætla að fyrirtækið misnoti þjónustuna eða brjóti gegn skilmálunum. Sama á við ef fyrirtækið er í vanskilum lengur en 15 daga með greiðslur sem Dropp ehf. hefur krafið um með réttmætum hætti samkvæmt skilmálum þessum.

13. ANNAÐ

13.1. Dropp ehf. er heimilt að flytja eignarhald að Dropp að hluta eða öllu leyti til þriðja aðila ásamt öllum þeim upplýsingum sem Dropp hefur að geyma, án samþykkis fyrirtækisins. Sama gildir um hvers konar önnur lagaleg eigendaskipti að Dropp ehf. Yfirfærsla eignarhalds eða önnur lagaleg eigendaskipti er varða Dropp, að hluta eða öllu leyti, hefur engin áhrif á skilmálana eða samninginn. Yfirfærist eignarréttur að Dropp skal litið á tilvísun til Dropp ehf. í skilmálunum sem tilvísun til nýs eiganda Dropp.

13.2. Öll réttindi og allar skyldur fyrirtækisins og Dropp ehf. sem tengjast notkun á Dropp eða skilmálunum fara samkvæmt íslenskum lögum.

13.3. Skilmálum þessum var síðast breytt þann 1. janúar 2020.